Óheilbrigðar aðstæður og sambönd á fullorðinsárum
Að alast upp í óheilbrigðum aðstæðum kenndi mér að aðlaga mig að umhverfi sem gaf mér ekki það sem ég þurfti til að lifa heilbrigðu lífi sem barn. Skortur á ást, athygli og staðfestu frá báðum foreldrum mínum kenndu mér leiðir til að lifa þann sársauka af. Það var ekki fyrr en ég var komin á fullorðinsár sem ég áttaði mig á því að ég væri enn að halda í óheilbrigð hegðurnarmynstur þrátt fyrir að vera í heilbrigðum aðstæðum.
Það er enginn sökudólgur á þessu sviði og ég tel mikilvægt að draga fram að allir eru að gera sitt besta, alltaf. Við getum mis mikið á hverjum tíma og okkar besta er mismunandi dag frá degi, mánuði til mánaðar og frá ári til árs.
Óheilbrigðar aðstæður geta birst okkur á fjölbreyttan hátt, allt frá þeim atriðum sem rituð eru hér að ofan ásamt öðrum “sárum” tengdum okkar þroskaferð. Sem dæmi má nefna :
Að upplifa kynferðis-andlegt eða líkamlegt ofbeldi
Að verða vitni að kynferðis - andlegu eða líkamlegu ofbeldi
Alvarleg veikindi fjölskyldumeðlims eða nákomins ættingja
Skortur á foreldraímynd
Ofbeldi á heimili - andlegt eða líkamlegt
Skortur á trausti
Skortur á tilfinningalegri nánd
Of mikil ábyrgð
Of lítil ábyrgð
Fjölmargar rannsóknir sýna fram á skaðsemi þessara þátta á heilsu og sambönd fólks á fullorðinsárum og má þar nefna auknar líkur á geðröskunum, kvíða og þunglyndi. Þessi hópur er einnig líklegri til að sækjast í óheilbrigð sambönd eða festast í samböndum sem þeir vilja jafnvel ekki vera í og koma sér ekki útúr og síðast en ekki síst þróar það oftast með sér meðvirkni. Það er enginn furða, þegar lífið hefur snúist um að lifa af sem laufblað þegar þú ert í raun tré.
Þetta er því veigamikill þáttur sem nauðsynlegt er að skoða til þess að mynda heilbrigð sambönd við aðra og okkur sjálf með hækkandi aldri. Birtingarmyndirnar eru mismunandi og hér tala ég að mestu útfrá sjónarhorni meðvirkni og eigin birtingarmynd.
Að upplifa skort á ást
Skortur á knúsi, hlýjum orðum, samveru og tilfinningum. Þeir sem upplifa skort á ást eru líklegri til að “láta sig hafa það” í samböndum eða fara algjörlega hina leiðina. “Ég ætla vera ein/n/tt - ég þarf engann”. Klassískt varnarviðbragð við sársauka.
Skortur á staðfestu
Að hafa ekki staðfestu gerði mig að litlu “fullorðnu” barni og þannig gat ég mótað mína eigin staðfestu í lífinu. Kenndi mér líka að þeir sem eru mér næstir eru ekki traustsins verðir. Þeir sem hafa upplifað slíkt í uppeldi eru einnig líklegri til að sækjast í maka sem er ekki með staðfestu þar sem þetta er atriði sem þeir kannast við síðan úr æsku.
Ónóg athygli
Að vinna heimavinnuna, að brillera í skólanum. Að þurfa engann til að halda sér við efnið. Ég ætlaði að vera á undan til að sýna hversu “dugleg” ég væri. Ég sendi öðru foreldri mínu myndir af mér til að fanga athygli þess með von um að ég fengi pláss í lífi þeirra þótt það væri bara á veggjunum heima. Ég sjálf var ekki nóg, ég þurfti að finna aðrar leiðir til að sjást. Athygli. Sjáðu mig. Hvernig sem ég fer að því að fanga athyglina þína.
Manneskjur sem alast við slíkt uppeldi eru líklegar til að sveiflast á milli þess að ætlast til of mikillar athygli frá maka eða fara þveröfuga leið - sætta sig við örlitla athygli hér og þar sem gæti gefið þeim falska von.
Fyrstu skrefin í átt að heilbrigði í samskiptum
Það er komin tími til að setja upp gleraugun, fella niður skjöldin og hrissta upp í hugrekkinu.
Að sjá eigin hegðun
Að viðurkenna hana
Að sjá endurtekin mynstur í samskiptum
Vilji til að breyta hegðun
Breytt hegðun
Fyrsta skrefið er að átta sig á eigin æsku, áhrifum hennar og eigin varnarviðbrögðum til að komast í átt að áhrifaríkari og bættum samskiptum. Það er nefnilega hægt að vinna með það sem er komið upp á yfirborðið, en á meðan við sjáum ekki þá getum við ekkert bætt eða breytt.
Það er alls ekki auðvelt að sjá manns eigin beygluðu mynstur en með því gefst þetta tækifæri til að afrétta þau. Það er nákvæmega það fallega við lífsins verkefni, er að þau eru alltaf dulbúin tækifærum sem hjálpa okkur að hoppa upp vaxtarstigann ef við erum tilbúin að sjá og höfum hugrekkið að kafa ofan í þau.
Nú er kominn tími til að leyfa laufblöðunum að falla og vaxa á ný sem staðfast, aðdáunarvert tré sem gefur af sér gleði og birtir sig nákvæmlega eins og það er.
Megir þú vaxa á þinni eigin leið,
Erla Dröfn Kristjánsdóttir