Er ég að gera þetta fyrir mig eða þig?
Hefuru heyrt um manneskjuna sem er í sambandinu sem augljóslega er ekki að veita henni hamingju en hún heldur áfram að spóla í því til að særa engann ?
Eða manninn sem er óánægður í starfi og kvíður fyrir að mæta alla daga en hann segir ekki upp af ótta við að valda yfirmönnum sínum vonbrigðum ?
Þrátt fyrir að særa ekki maka sinn eða yfirmenn standa þessar tvær manneskjur með hnífinn í bakinu, frá þeim sjálfum.
Hnífurinn stoppar af þeirra eigin vöxt, þrár og langanir til að halda öðrum ánægðum.
Ein birtingarmynd meðvirkni er undanlátssemi og birtist m.a á þennan hátt. Við gleymum okkur sjálfum og eigin mikilvægi og aðrir fara að ganga fyrir.
Það er enginn að tala um að við setjum okkur á háhest og aðra í dýflissu, nei. Við mætumst á miðri leið. Jafn mikilvæg - jöfn. Við höfum sama rétt til vaxtar, til að finna ástina, til að gera það sem hjartað okkar segir okkur að gera, velja rétta vinnustaðinn, loka á sambönd sem okkur finnst ekki henta lengur og síðast en ekki síst að njóta lífsins eins og við kjósum réttast.
Hver græðir á því að vera í ástlitlu sambandi ? Hvorugur aðilinn. Þrátt fyrir að annar aðilinn sé jafnvel yfir sig ástfanginn en ef hinn upplifir ekki það sama og þorir ekki að segja frá því - hverjum er greiði gerður? Manneskjunni sem er logið að og heldur að hún sé í ástarsambandi sem er endurgoldið - eða manneskjan sem lýgur að sjálfum sér og festir sig í ástandi vitandi að ástin gæti verið allt annarstaðar?
Hver græðir á því að vera með manneskju í vinnu sem hefur enga unun eða gleði af starfi sínu ? Vinnustaðurinn gæti vel fengið aðila sem uppfyllir kröfur og myndi njóta starfsins og sama með starfsmanninn, líklegt er að hann finni annað starf sem gæti hentað hans stefnu og veitti honum ánægju.
Það er sárt að enda sambönd, sama hverskonar sambönd það eru. Það er svolítið eins og að byrja baka köku, setja saman hráefnin, hræra, setja kökuna í ofninn… og fara svo. Sumir smakka hana en fá svo nóg og vilja hefja bakstur á annari köku. Það má. Það má breyta til. Það má skipta um skoðun. Það má gera það sem þér finnst réttast.
Hvernig veit ég hvort að ég sé að halda í sambönd af ótta við að særa aðra?
Ég er ekki að hvetja til að enda sambönd sem eru undir skammtíma pressu, það eru allskonar leiðir sem hjálpa okkur að auka ánægju og traust í samböndum. En það er einnig ótti sem heldur aftur af okkur að enda sambönd sem næra okkur ekki lengur. Finnum við kannski ekkert betra? Verðum við þá föst? Tókum við ranga ákvörðun?
Samskipti eru stór þáttur í velgengi sambanda, sama af hvaða tagi samböndin eru. Vinnutengd eða nánari sambönd. Sjálfsþekking og sjálfstraust eru einnig stórir þættir sem hjálpa okkur að finna út hvort þetta sé samband fyrir okkur eða ekki.
Oft er hugurinn á fullu þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og fyrir mig hefur reynst vel að einfalda hlutina og koma aðal atriðum á blað. Þessar þrjár spurningar hafa komið mér að góðum notum og hjálpað mér að sjá það sem skiptir máli ef hugurinn er í krassi og ég sé ekki skýrt.
Er ég að upplifa ánægju, vöxt og vellíðan í sambandinu ?
Sé ég mig í þessu sambandi eftir 5 ár ?
Er ég hreinskilin um líðan mína ?
Ef þú svarar einni eða fleirum spurningum neitandi er tækifærið til að skoða áhrifaþættina sem halda þér í sambandinu. Það er ekkert skrifað á blað að sambandið sé dauðadæmt, en það getur opnað hug þinn á hvað betur mætti fara og hvort að þetta sé raunverulega það sem þú villt. Það getur líka hjálpað þér að sjá hvort að þú sért að gera þetta fyrir þig eða aðra.
Þetta snýr alltaf að okkur sjálfum, ekki öðrum manneskjum. Hvað nærir mig? Hvert vil ég stefna? Hvernig líður mér?
Um leið og við erum óheiðarleg við okkur sjálf verðum við óheiðarleg við aðra á sama tíma, þrátt fyrir að undir niðri erum við að reyna gera gott. Allir tapa. Báðir aðilar í ástarsambandi missa tækifærið á sannri ást og vinnustaðurinn tapar möguleika á enn betri starfskrafti og starfskrafturinn tapar möguleikanum á að finna starf sem hann elskar.